Dagbjört Andrésdóttir
Dagbjört Andrésdóttir er fædd árið 1991. Hún hefur sungið frá unga aldri. Hún byrjaði fyrst í Stúlknakór Reykjavíkur hjá Margréti Pálmadóttur og hóf svo eiginlegt söngnám 14 ára í Söngskólanum Domus Vox, einnig hjá Margréti. Þar voru aðalkennarar hennar Hanna Björk Guðjónsdóttir, Margrét Pálmadóttir og Antonia Hevesi. Dagbjört lauk þeim hluta námsins með lokatónleikum árið 2014, þá komin yfir í kvennakórinn Vox Feminae. Það ár hóf hún nám í Söngskóla Sigurðar Demetz, undir leiðsögn Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Diddúar. Dagbjört lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2018 og er nú á háskólastigi hjá Diddú við sama skóla. Innan námsins hefur hún sungið bæði stærri og smærri hlutverk á sviði, þ.á.m.hlutverk Silfurraustar í óperunni ,,Schauspieldirektor” eftir Mozart, hlutverk Anninu, í óperunni ,,Eine Nacht in Venedig” eftir Strauss - og nú síðastliðið vor hlutverk Spes, úr óperunni Grettir, eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Sú uppfærsla var frumflutningur á Gretti á Íslandi. Samhliða námi hefur Dagbjört oft komið fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri, bæði innan skólans sem og með kórum sínum bæði á Íslandi, Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku. Hún kemur einnig fram við ýmis önnur tækifæri hér á landi, m.a. við messur, jarðarfarir, afmæli, samkomur og annað.