Stúlknakór Reykjavíkur, Aurora og nemendur úr einsöngsdeild Domus Vox
choir
Stúlknakór Reykjavíkur var stofnaður af Margréti J. Pálmadóttur kórstjóra haustið 1995.
Stúlkurnar eru á aldrinum 6-16 ára og koma frá grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. Stúlknakórinn er fjölmennur og telur um 100 þátttakendur hvert ár. Starf kórsins þroskar söngnæmi nemenda með því að flytja fjölbreytta kórtónlist. Margar stúlkur stunda einsöngsnám við söngskólann Domus vox og þannig er söngur orðinn stór þáttur í lífi þeirra. Kórinn hefur haldið fjölda tónleika og oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tekið þátt í leikhúsuppfærslum.
Auk Margrétar starfa nú við kórinn: Sigríður Soffía Hafliðadóttir, Matthildur Guðrún Hafliðadóttir, Björg Birgisdóttir, Stella Óladóttir og meðleikari er Jón Elísson.
Í verkefninu „Tumi fer til tunglsins“ eru kórstúlkur frá 12 ára aldri.
Aurora var stofnaður árið 1997 af Margréti J. Pálmadóttur. Haustið 2015 tók Sigríður Soffía Hafliðadóttir við kórnum. Raddleiðbeinandi kórsins er Matthildur Guðrún Hafliðadóttir.
Aurora er hluti af Kirkju- og samsöngsdeild Söngskólans Domus vox og gefst kórfélögum þannig tækifæri á að stunda einsöngsnám að framhaldsstigi. Flestir kórfélagar hafa nýtt sér það tækifæri og er söngur því orðinn stór þáttur í lífi þeirra.
Kórinn tekur að sér ýmis samstarfsverkefni og hefur margoft tekið þátt í tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikhúsuppfærslum í samstarfi við Borgarleikhúsið, nú síðast í Söngleiknum 9 líf (2020 – 2024).
Einnig hefur verið leitað til kórsins þegar kemur að hljóðupptökum fyrir kvikmyndir eða hljómplötur. Haustið 2022 frumflutti kórinn 10 sönglög eftir söngkonuna og tónskáldið Unu Stefánsdóttur.
Einnig má nefna samstarf kórsins við tónskáldið Jóhann G. Jóhannsson og Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, stjórnanda, í verkefninu Tumi fer til tunglsins en það hefur verið afar gefandi og lærdómsríkt.