Rappresentazione di Anima e Corpo
Breiðholtskirkja · 20/11/21 at 7:00 PM
Tónlistardeild Listaháskólans ræðst í flutning á tímamótaverki Emilios Cavalieris, Rappresentazione di Anima e Corpo. Verkið var frumflutt í Róm árið 1600 og prentað og gefið út það sama ár. Verkið telst vera fyrsta óratórían þar sem kór, einsöngvarar og hljómsveit sameinast í dramatísku tónleikhúsverki. Fyrsta óperan, Euridice eftir Jacopo Peri, leit dagsins ljós strax sama ár. Cavalieri stjórnaði þeirri sýningu á vegum Medici fjölskyldunnar. L'Orfeo eftir Monteverdi var svo samin sjö árum seinna.
Verkið lýsir innri baráttu mannsins við sjálfan sig, hið jarðneska líf andspænis hinu andlega, dyggðir, feistingar og almættið. Í verkinu leika Tíminn, Líkaminn, Sálin, Viskan, Heimurinn, Lostinn, Jarðneska lífið og Góðu ráðin helstu hlutverkin ásamt englum, blessuðum sálum og glötuðum sálum. Kórinn leikur stórt hlutverk og styður við söguna, dregur saman og skerpir jafn óðum á boðskapnum á milli þess sem persónurnar takast á.
Kammerhljómsveit leikur í verkinu og munu þau Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og Sergio Leopold Blanco teorbuleikari leiða meðleikinn, eða continuo hópinn, og leiðbeina öllum hópnum um stíl og flutningsaðferðir. Aðrir leiðbeinendur eru Hanna Dóra Sturludóttir, fagstjóri söngbrautar, Katrín Gunnarsdóttir, kóreógraf og fagstjóri dansbrautar og Sigurður Halldórsson sem stjórnar flutninginum. Alls verða flytjendur um 70 talsins.