Heill þér, hafsins stjarna
Sumri hallar, hafið ýfist, laufin falla, vindur hvín,
haustgrá himnahallarskýin ýra' úr lofti, byrgja sýn.
Viltu gjarnan orna þér við dýrindi og dirrindí?
Sjáðu þarna! Hafsins stjarna logar Langholtskirkju í!
[english below]
Graduale Nobili og Huldur halda sameiginlega tónleika í Langholtskirkju, fimmtudaginn 26. október klukkan 20:00.
Fluttar verða kórperlur eftir Edvard Grieg, Eric Whitacre, Jón Leifs, Michael Bojesen, Pál Ísólfsson og marga fleiri. Þar að auki verða frumflutt verk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Júlíus Mána Sigurðsson og Kormák Loga Bergsson.
Almennt miðaverð: 2500 kr.
Námsmenn og eldri borgarar: 1500 kr.
Öryrkjar og börn undir 12 ára: Frítt
Húsið opnar 19:30 og gestum verður unnt að borga bæði með reiðufé og korti.
Graduale Nobili var stofnaður um aldamótin af Jóni Stefánssyni organista og tónlistarfrömuði í Langholtskirkju og hefur skipað sér sess meðal farsælustu kóra Íslands. Kórinn skipa 26 meðlimir á aldrinum 18-26 ára. Kórinn hefur meðal annars sungið á tónleikaferðalagi með Björk Guðmundsdóttur auk þess að starfa með öðrum heimsþekktum tónlistarmönnum á borð við hljómsveitina Fleet Foxes. Graduale Nobili gaf nýlega út plötuna Vökuró með 16 íslenskum kórverkum, nýjum sem og sígildum perlum. Kórstjóri Graduale Nobili er Sunna Karen Einarsdóttir.
Kammerkórinn Huldur steig fyrst á kórpallana haustið 2021. Nafnkostur kórsins er huldurin sem, djúpt í hafi, knýr öldurnar fram með langspili sínu líkt og segir í ljóði Gríms Thomsen eða saumar sólargull í vatnsdropa fossins líkt og í ljóði Hannesar Péturssonar. Kórinn er skipaður 29 ungmennum. Huldur hefur tekið virkan þátt í kóralífi Reykjavíkur undanfarin ár, haldið marga tónleika og frumflutt 28 kórverk á aðeins tveimur árum, m.a. eftir Hafstein Þórólfsson, Hildigunni Rúnars, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Huga Guðmundsson - greinilegt H-þema hér á sveimi. Kórstjóri Huldar er Hreiðar Ingi Þorsteinsson.