Ástríður Alda Sigurðardóttir

Píanóleikari

Ástríður Alda Sigurðardóttir

Ástríður Alda Sigurðardóttir hóf nám í píanóleik 6 ára gömul hjá móður sinni, Guðrúnu Guðmundsdóttur. Vorið 1999 lauk hún einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Á árunum 2000-2003 stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University – Jacobs School of Music í Bloomington þar sem hún lauk Artist Diploma með hæstu einkunn. Hún hefur einnig sótt fjöldann allan af námskeiðum, og tímum í píanóleik og kammertónlist, hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler.

Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum. Árið 2015 kom hún m.a. fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í píanókonserti Jórunnar Viðar í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Þá lék hún einleik í öðrum píanókonserti F. Chopin með hljómsveitinni á afmælisári tónskáldsins árið 2010. Af sama tilefni gaf hún út sólóplötuna Chopin (2010) sem inniheldur fjórar ballöður tónskáldsins auk sónötunnar í b-moll.

Ástríður er meðlimur Elektra Ensemble, tónlistarflytjanda ársins 2020 úr flokki tónlistarhópa, sem fagnaði 10 ára starfsafmæli með útgáfu hljómplötunnar Elektra Ensemble (2019). Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel, á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum og í tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu. Í samstarfi við Emilíu Rós, flautuleikara Elektru, fæddist líka hljómplatan Portrait (2014), sem fékk lofsamlega dóma í tímaritinu Gramophone og þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, þar á meðal sem hljómplata ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Ástríður hefur einnig átt gjöfult samstarf við marga af fremstu söngvurum landsins og verkefnavalið verið býsna fjölbreytt. Allt frá íslenskum sönglögum eins og heyra má á hljómplötunni Aldarblik (2007) til íslenskra og finnskra tangóa eins og Fimm í tangó (2010) teflir fram. Núna síðast kom út undir merkjum belgíska útgáfufyrirtækisins Fuga Líbera Thorsteinson & Schumann (2021) í samstarfi við Andra Björn Róbertsson, bass-barítón sem hefur fengið frábæra gagnrýni

Samhliða starfi sínu sem sjálfstætt starfandi píanóleikari starfar Ástríður sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Styrktar- og samstarfsaðilar