Þóra Einarsdóttir

sópran

Þóra

Þóra Einarsdóttir stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og við óperudeild Guildhall School of Music and Drama. Hún hóf feril sinn að námi loknu (1995) við Glyndebourne Festival Opera. Hún hefur einnig starfað við Ensku Þjóðaróperuna, Opera North, Opera Factory, óperuhús í Mannheim, Nürnberg, Darmstadt, Berlín, Basel, Genf, Lausanne, Prag, Salzburg, Bologna, Malmö og í Wiesbaden þar sem hún var fastráðin í átta ár. Hún hefur einnig sungið hlutverk við Íslensku óperuna. Meðal hlutverka Þóru eru Pamina í Töfraflautunni, Susanna í Brúðkaupi Figarós, Ilia í Idomeneo, Despina í Così fan tutte, Zerlina í Don Giovanni, Euridice í Orfeo ed Euridice, Cleopatra í Júlíus Sesar, Elmira í Croesus, Adina í Ástardrykknum, Marie í Dóttir herdeildarinnar, Nanetta í Falstaff, Gilda í Rigoletto, Mimi í La Bohème, Michaela í Carmen, Sophie í Rosenkavalier, Xenja í Boris Godunov, Adele í Leðurblökunni, Gretel í Hänsel und Gretel, Ännchen í Freischütz, Woglinde, Ortlinde og Waldvogel í Niflungahringnum, Zaubermädchen í Parsifal, Tatiana í Evgeny Onegin og Lucia í The Rape of Lucretia. Hún hefur m.a. sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwhistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen og Gregory Frid, Gunnar Þórðarson og Daníel Bjarnason. Þóra hefur lagt áherslu á ljóðasöng og tekið þátt í flutningi fjölda kirkjulegra verka. Auk fjölda tónleika á Íslandi hefur hún komið fram á tónleikum víða ásamt þekktum hljómsveitum, m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennidy Center í Washington og Weil Recital Hall í New York.  Þóra hefur sungið inn á fjölda hljóðritana bæði hér heima og erlendis. Hún söng hlutverk Mimí í fyrstu heildarútgáfu á óperunni Vert-Vert eftir Offenbach sem kom út hjá Opera Rara í London. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir söng sinn og verið sæmd hinni íslensku fálkaorðu og Dannebrog-orðunni. Þóra gegnir nú starfi sviðsforseta tónlistar, sviðslista og kvikmyndalistar hjá Listaháskóla Íslands.

Styrktar- og samstarfsaðilar