Bergþóra Linda Ægisdóttir
Söngkona
Bergþóra Linda Ægisdóttir, söngkona, tók burtfararpróf frá Söngskólanum í Reykjavík og síðar bachelorgráðu frá Listaháskóla Íslands. Hennar aðalkennari við Söngskólann var Signý Sæmundsdóttir og hennar helstu söngkennarar í Listaháskólanum voru Hanna Dóra Sturludóttir, Þóra Einarsdóttir, Dísella Lárusdóttir, Stuart Skelton og Kristinn Sigmundsson. Hún lauk alþjóðlegri M.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands í New Audiences and Innovative Practice þar sem hún einbeitti sér að tilraunatónlist, spuna og rannsóknum á óhefðbundnum nálgunum í bæði tónsmíðum og tónlistarflutningi. Hún er meðlimur í Kór Breiðholtskirkju og frumflutti með honum sem einsöngvari tvö ný verk árið 2024; Maríukvæði herleiddrar konu eftir Hróðmar I Sigurbjörnsson og Passíu eftir Ingibjörgu Ýr. Í desember 2024 heldur hún til Finnlands til að dvelja við Zodiak Residensíuna í Helsinki til þess að þróa í hópi tónlistarmanna fjölradda dansverk á vegum Felix Urbina Alejandre. Bergþóra hefur einnig lokið BA gráðu í heimspeki og forngrísku.
Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir