Bryndís Guðjónsdóttir

Sópran

Bryndís-Guðjónsdóttir

Bryndís Guðjónsdóttir lauk meistaragráðu í óperusöng með láði frá Universität Mozarteum í Salzburg í Austurríki en árið 2019 lauk hún bakkalárgráðu með láði frá Universität Mozarteum. Áður en hún flutti til Salzburgar nam Bryndís eitt ár við Listaháskóla Íslands þar sem hún starfaði með Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur.

Bryndís er handhafi nokkurra verðlauna. Árið 2022 vann hún fyrstu verðlaun og sérstök verðlaun í XVIII Certamen Nuevas Voces keppninni í Sevilla, árið 2021 hlaut hún fyrstu verðlaun í Riccardo Zandonai keppninni í Garda á Ítalíu og Danubia Talents Liszt Inernational Online Music Competition. Auk þess var hún sigurvegari í keppni Ungra einleikara á Íslandi 2018 með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hún var sigurvegari í Dušek keppnni í Prag árið 2018.

Bryndís hefur komið fram á fjölum óperuhúsa og með ýmsum sinfóníuhljómsveitum svo sem í Kiel, Kassel, Stuttgart, München, Salzburg, Prag, Martina Franca, Róm, Vilnius, Sevilla og Madrid.
Einnig kom hún fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum Ungra einleikara undir stjórn Daniel Raiskin árið 2018, Jólatónleikum þeirra árið 2021 undir stjórn Evu Ollikainen. Árið 2023 söng hún með sveitinni í Ævintýrinu um Töfraflautuna undir stjórn Kornilios Michailidis og Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttir undir stjórn Evu Ollikainen. Hún söng einnig með Ungsveit Sinfóníunnar í 9. Sinfóníu Beethoven árið 2019 undir stjórn Daníel Raiskin.

Þau verk sem Bryndís hefur sungið eru fjölbreytt og spanna margar aldir en á meðal ópera sem hún hefur sungið einsöng í eru; Cunegonde úr Candide eftir Bernstein, Belinda úr Dido og Aeneas eftir Purcell, Næturdrottningin úr Töfraflautuni, Servilia úr La clemenza di Tito eftir Mozart, Giulietta úr Ævintýrum Hoffmanns eftir Offenbach,Mrs. Julian Owen Wingrave eftir Britten og Rabbi rafmagnsheili eftir Þorkel Sigurbjörnsson.

Á meðal hljómsveitarverka eru Stabat Mater eftir Pergolesi, Nulla in Mundo eftir Vivaldi, Mozart Requiem, Matthesuarpassía J. S. Bach, 9. sinfónía Beethoven, Carmina Burana eftir Carl Orff og Folk songs eftir Berio.

Bryndís er styrkþegi Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi, Söngmenntasjóðs Marínós Péturssonar, Halldórs Hansen, Ingjaldssjóðs, Richard Wagners námsstyrkins og Gianna Szel í Austurríki.

Framundan hjá Bryndísi eru áramótatónleikar í Sevilla, Carmina Burana með Konunglegu fílharmóníusveitinni í Prag sem flutt verður í Liederhalle í Stuttgart og Freischütz eftir Weber í Óperuhúsinu í Kiel.

Styrktar- og samstarfsaðilar