Heiðdís Hanna Sigurðardóttir
Sópran

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, útskrifaðist vorið 2018 úr NAIP meistaranámi frá Listaháskóla Íslands og starfar nú sem sjálfstætt starfandi söngkona.
Hún hóf söngnám hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Garðabæjar og að framhaldsprófi loknu hélt hún til Þýskalands og stundaði söngnám á bakkalárstigi við Tónlistarháskólann í Freiburg hjá Prof. Angela Nick í þrjú ár. Hún skipti svo yfir í Listaháskóla Íslands og lauk síðasta árinu í bakkalárnáminu hjá Þóru Einarsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kristni Sigmundssyni.
Heiðdís Hanna sigraði í keppninni Ungir einleikarar og kom fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar í janúar 2016. Sama ár þreytti hún frumraun sína á óperusviðinu í hlutverki Zerlinu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart. Á árunum 2015-2017 kom hún reglulega fram á tónleikum í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu. Heiðdís Hanna hefur einnig starfað með hljómsveitinni HATARI og komið fram sem einsöngvari með þeim á tónleikum á Húrra, í Gamla Bíói og á Hlustendaverðlaununum 2018. Sumarið 2018 söng hún hlutverk 1. Dömu í uppfærslu Escales Lyriques á Töfraflautunni eftir Mozart á frönsku eyjunni Ile d‘Yeu.
Frá útskrift hefur Heiðdís Hanna komið reglulega fram sem einsöngvari á tónleikum, m.a. í tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni í Reykjavík, sunnudagstónleikaröð í Hannesarholti, Kúnstpásu í Íslensku óperunni og Sumartónleikum í Skálholti. Hún fór með hlutverk í kammeróperunni Kornið eftir Birgit Djupedal og Ingunni Láru Kristjánsdóttur sem var frumflutt á Óperudögum í Reykjavík haustið 2018. Einnig fór hún með hlutverk Sónötu í nýrri uppsetningu á samnefndri barnaóperu eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Messíönu Tómasdóttur sem sýnd var á sömu hátíð. Heiðdís Hanna hefur sungið með kór Íslensku óperunnar frá hausti 2016 og syngur nú í sýningunni Brúðkaup Fígarós í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur einnig starfað með kammerkórnum Schola cantorum Reykjavicensis og sungið með honum m.a. á tónleikunum Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og á Kirkjulistahátíð 2019.
p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 8.0px 0.0px; font: 11.0px 'Trebuchet MS'; color: #000000} span.s1 {font-kerning: none}