Peter Aisher

Söngvari og píanisti

PeterAisher

Peter Aisher hóf krefjandi tónlistarnám tíu ára gamall sem kórdrengur í Windsor Castle þar sem hann söng átta guðþjónustur á viku með kirkjukórnum og lærði á píanó og klarinett, þó að hann hafi ekki farið leynt með áhuga sinn á að læra á saxófón. Á unglingsárum komst hann loks yfir alto-saxófón og lærði einnig á rafmagnsbassa. Þegar hann var sextán ára við nám í Tonbridge School í Kent skipti hann úr klassísku píanónámi yfir í djass- píanónám og lærði hjá Sean Hargreaves og seinna hjá Claude Alexander. Ári síðar fékk hann sitt fyrsta atvinnutækifæri og spilaði mánaðarlega á ítalska veitingastaðnum Antonia’s með tríóinu sínu Three’s Company.

Peter lærði stjarneðlisfræði við háskólann í Cambridge þar sem hann var á kórstyrk við Clare College. Á meðan á náminu stóð tók hann ríkan þátt í tónlistarlífi háskólans. Sem söngvari var hann meðlimur í „close harmony“ sönghópnum Over The Bridge þar sem hann bæði útsetti lög þeirra og kom fram með þeim í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann lék á bassa og gerði útsetningar fyrir Churchill Jazz Band. Hann var líka bassaleikari og síðar tónlistarstjóri Cambridge University Swing Band og spilaði með þeim á píanó í tónleikaferðalagi þeirra um Króatíu. Sem píanóleikari var Peter einn af stofnendum fönk-grúppunnar Colonel Spanky’s Love Ensemble en lék einnig á píanó og bassa í nokkrum öðrum hópum allt frá dúettum til septetta. Árið 2012, eftir að hafa lokið meistaranámi sínu hóf hann framhaldsnám í Royal College of Music og lærði klassískan söng undir handleiðslu Tim Evans-Jones. Hann vann til fjölmargra verðlauna, útskrifaðist með láði og fékk í kjölfarið inngöngu í RCM International Opera School. Árið 2016 flutti hann til Þýskalands og fékk stöðu sem unglistamaður við Deutsche Oper am Rhein í Düsseldorf þar sem hann kom fram í um það bil 120 óperusýningum yfir tvö leikár.

Frá 2018 til 2022 var Peter fastráðinn sem einsöngvari við Landestheater Coburg þar sem hann fór meðal annars með hlutverk Tamino í Töfraflautunni, Ferrando í Così fan tutte, Tom Rakewell í Rake’s Progress og Edgardo í Lucia di Lammermoor. Hann söng veigamikil hlutverk í óperettunum Vetter aus Dingsda, Wiener Blut og Die Fledermaus. Í 2019 gerðist hann meðlimur alternative rock hljómsveitarinnar Black Star sem bassaleikari og bakraddasöngvari. Árið 2022 vatt hann sínu kvæði í kross og hefur síðan starfað sem hugbúnaðarverkfræðingur á daginn og hefur loksins fundið tíma til að hverfa aftur til djassuppruna síns með mánaðarlegum giggum á Café Victoria í Coburg.

Styrktar- og samstarfsaðilar