Sólrún Bragadóttir
Söngkona
Sólrún lærði ung á píanó, söng í kórum og hóf mjög ung einsöngsnám á heimaslóðum. En fór síðan til frekara náms og lauk bachelor og meistaragráðum í einsöng og kennslufræðum frá tónlistarháskólanum í Bloomington í Indiana. Meðal kennara hennar þar var hin þekkta rúmenska söngkona Virginia Zeani. Sólrún fór beint úr námi til Þýskalands og starfaði við helstu óperu- og leikhús þarlendis og víða í Evrópu. Fyrsta fastráðning hennar var í leikhúsinu Kaiserlautern. Leiðin lá stuttu síðar til Hannover með föstum gestasamningi við Düsseldorf og að auki gerði hún fjölmarga gestasamninga við ma. Staatsoper í München, Mannheim, Karlsruhe, Heidelberg, Kassel, Bremen, Liége, Belfast, Avignon, Bern ofl.
Meðal margra hlutverka hennar má nefna Mimi í La Bohème, Suor Angelica í samnefndri óperu, Líu í Turandot, Desdemona í Otello, Gilda í Rigoletto, Elisabetta í Don Carlo, Greifafrúnin í Brúðkaupi Fígarós, Donna Anna í Don Giovanni, Pamínu í Töfraflautunni, Elettra í Idomeneo og Fiordiligi í Così fan tutte, Margarita í Faust, Leonora í Fidelio, Michaela í Carmen, Antonia í Ævintýrum Hoffmanns ofl.
Þá hefur hún einnig margoft komið fram sem einsöngvari með hljómsveitum, sungið fjöldanallan af ljóðatónleikum, óratoríur og Vínartónlist, hérlendis sem víða erlendis. Haustið 2022 flutti Sólrún heim til Íslands eftir langa dvöl erlendis og kemur fram sem klassískur söngvari með fjölbreyttum efniviði. Hún hefur þróað sitt eigið ferli sem hún kallar. Óperusöngflæði þar sem hún kemur fram við hin ýmsu tækifæri og syngur a cappella í innsæisflæði.
Hún hefur einnig þróað sína eigin heildrænu raddkennsluaðferð sem byggist á psycho synthesis. þerapíu og eigin reynslu og næmni. Kennslan er ekki aðeins hugsuð fyrir söngvara heldur alla sem óska eftir að kynnast röddinni sinni betur og nýta sér til heilunar, hreinsunar og gleði. Að. auki hefur hún þróað Sound - frequency meðferð sem gefur fólki tækifæri á að hreinsa munstur og trauma, kjarna sig betur og upplifa heilun.