VOX FEMINAE
Kvennakór
Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður í Reykjavík árið 1993. Stofnandi kórsins var Margrét J. Pálmadóttir og stjórnaði hún kórnum til ársloka 2018. Í janúar 2019 tók Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað við stjórn kórsins.
Í kórnum starfa um 40 félagar á aldrinum 18 til 60 ára.
Kórinn hefur komið fram við margvísleg tækifæri hér heima og haldið tónleika á hverju ári. Þá hefur kórinn farið í tónleikaferðir innanlands og utan. Í nóvember 2000 vann Vox feminae til silfurverðlauna í VII Alþjóðlegu kórakeppninni í flutningi trúarlegrar tónlistar, keppni sem kennd er við tónskáldið Palestrina og haldin er í Vatikaninu í Róm.
Trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum hefur einkennt lagaval kórsins í gegnum tíðina, en jafnframt hefur kórinn lagt rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld.
Vox feminae leggur metnað sinn í að auka veg kvennakóratónlistar og fær kórinn í þeim tilgangi íslenskt tónskáld til að semja nýtt verk fyrir kórinn árlega. Vox feminae er stofnfélagi Gígjunni, landssamtökum íslenskra kvennakóra.